Enski sóknarmaðurinn Wayne Rooney, leikmaður Evrópumeistara Manchester United, segist hafa lært af reynslunni frá því hann var sendur af leikvelli í leik gegn Villarreal í Meistaradeild Evrópu fyrir þremur árum, en liðin mætast að nýju annað kvöld.
Rooney fékk sitt annað gula spjald, og þar með rautt, í leiknum fyrir þremur árum fyrir að klappa kaldhæðnislega fyrir dómara leiksins, Kim Milton Nielsen. Hann hefur þótt eiga erfitt með að hemja skap sitt á leikvellinum, sérstaklega á sínum fyrstu árum sem atvinnumaður.
„Þetta hjálpaði mér að komast í takt við raunveruleikann. Það var fáránlegt af mér að gera þetta,“ sagði Rooney í samtali við Daily Mirror.
„Þegar ég var inni í búningsklefanum eftir á hugsaði ég með mér: Til hvers var ég að gera þetta? Ég lærði af þessu. Þetta var mikill vendipunktur. Maður vill ekki þurfa að vera einn inni í klefa að hugsa um hvað maður hefði getað gert inni á vellinum,“ bætti hann við.
Hann hefur aðeins hlotið eitt rautt spjald á þremur leiktíðum síðan þetta gerðist.