Ensku liðin Chelsea og Liverpool fóru vel af stað í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld, gegn frönskum andstæðingum. Chelsea vann Bordeaux létt á Stamford Bridge, 4:0, og Liverpool lagði Marseille í Frakklandi, 2:1.
Atvikalýsing úr Chelsea - Bordeaux, smellið hér.
Atvikalýsing úr Marseille - Liverpool, smellið hér.
Frank Lampard kom Chelsea yfir á 14. mínútu og Joe Cole bætti við öðru marki eftir hálftíma leik. Á lokamínútum leiksins skoruðu síðan Florent Malouda og Nicolas Anelka og lokatölur 4:0.
Liverpool lenti undir á 23. mínútu í Marseille þegar Cana skoraði fyrir heimamenn en enska liðið var fljótt að svara fyrir sig. Innan tíu mínútna hafði Steven Gerrard skorað tvívegis, síðara markið úr vítaspyrnu, og þar við sat. Á lokasekúndunum kom José Reina í veg fyrir að Marseille jafnaði metin þegar hann varði skot úr dauðafæri.
Lið Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Dossena, Gerrard, Mascherano, Leiva Lucas, Kuyt, Torres, Babel.
Varamenn: Cavalieri, Agger, Keane, Riera, Alonso, Benayoun, Degen.
Lið Chelsea: Cech, Bosingwa, Carvalho, Terry, Ashley Cole, Obi, Joe Cole, Deco, Lampard, Malouda, Anelka.
Varamenn: Hilario, Di Santo, Ballack, Ferreira, Kalou, Alex, Belletti.
Tvenn óvænt úrslit litu dagsins ljós þegar rúmenska liðið CFR Cluj vann Roma, 2:1, á Ítalíu og kýpverska liðið Anorthosis náði 0:0 jafntefli gegn Werder Bremen í Þýskalandi. Þetta var fyrsti leikur liðs frá Kýpur í Meistaradeildinni frá upphafi.
Úrslit kvöldsins:
A-riðill:
Roma - CFR Cluj 1:2
Chelsea - Bordeaux 4:0
B-riðill:
Panathinaikos - Inter Mílanó 0:2
Werder Bremen - Anorthosis 0:0
C-riðill:
Barcelona - Sporting Lissabon 3:1
(Eiður Smári kom ekkert við sögu hjá Barcelona)
Basel - Shakhtar Donetsk 1:2
D-riðill:
Marseille - Liverpool 1:2
PSV Eindhoven - Atlético Madrid 0:3