Brasilíski knattspyrnumaðurinn Ronaldo segist ganga til liðs við Manchester City og ætlar að gera sitt til að gera félagið að einu besta liði heimsins.
Ronaldo, sem þrívegis hefur orðið fyrir valinu sem besti knattspyrnumaður heims, er að jafna sig af alvarlegum hnémeiðslum en hann sagði skilið við AC Milan í sumar og fer til City án greiðslu.
„Mér líst vel á þau áform sem City hefur kynnt fyrir. Þetta er besta tilboð sem ég hef fengið og það verður áhugavert að spila með Robinho. Við gætum saman skorað yfir 50 mörk,“ sagði hinn 31 árs gamli Ronaldo við fréttamenn í Brasilíu þar sem hann er í endurhæfingu.
Ronaldo, sem hefur leikið með liðum á borð við Barcelona, Real Madrid og AC Milan, hefur ekkert spilað síðan í febrúar en þá sleit hann krossband í hné í leik með AC Milan.
Að sögn læknis sem framkvæmdi aðgerðina á Ronaldo ætti hann að geta byrjað að spila eftir tvo til þrjá mánuði að því gefnu að hanni leggi á sig mikla vinnu við æfingar til að styrkja hnéð.