Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, var ánægður með sigurinn gegn Marseille í Meistaradeild Evrópu í kvöld, ekki með leikinn sem slíkan, og átti vart orð til að lýsa fyrra markinu sem Steven Gerrard skoraði.
Gerrard jafnaði þá metin, 1:1, á 26. mínútu með glæsilegu skoti af 20 metra færi eftir flottan undirbúning hjá Fernando Torres og Dirk Kuyt. Rétt á eftir skoraði Gerrard úr vítaspyrnu og það reyndist sigurmarkið, 2:1.
"Fyrra markið hjá Gerrard var hreint ótrúlegt - stórkostlegt mark. Við beittum skyndisóknum í kvöld og hefðum getað spilað betur en við kræktum í gífurlega mikilvæg stig. Leikmenn Marseille eru klókir og við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Við vörðumst vel sem lið í kvöld," sagði Benítez við fréttamenn eftir leikinn.
Erik Gerets þjálfari Marseille sagði að Gerrard hefði gert útum leikinn. "Hann er heimsklassa leikmaður og sýndi það í kvöld. Aðeins þeir bestu geta skorað svona mörk. Hann breytti algjörlega gangi leiksins en ég er afar vonsvikinn því við sköpuðum okkur nægilega mörg færi til að sigra," sagði þessi gamalkunni belgíski þjálfari og fyrrum lykilmaður í landsliði Belga.