Þrátt fyrir markalaust jafntefli gegn Villarreal frá Spáni á Old Trafford í kvöld, í Meistaradeild Evrópu, var Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, ánægður með leik sinna manna.
Hann var ekki síst ánægður með að fá Cristiano Ronaldo aftur í sitt lið en Portúgalinn spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Hann kom inná sem varamaður á 62. mínútu.
„Cristiano Ronaldo hefur upplifað margt í sumar og mikið hefur verið sagt og skrifað um hann, en þegar ég ræddi við hann í Portúgal í júnímánuði var allt á hreinu. Hann var staðráðinn í að komast í góða æfingu á ný og helga sig félaginu og móttökurnar sem hann fékk í kvöld voru honum mikilvægar," sagði Ferguson við BBC.
„Ég held að hann átti sig á því hversu frábært félagið er og hversu tryggir stuðningsmenn þess eru, og það verður honum mikil hvatning.
Við fengum fullt af góðum marktækifærum í kvöld, spiluðum virkilega góðan fótbolta og lékum mjög hratt. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta, mörkin hefðu getað orðið fjögur til fimm. Villarreal er með mjög reynt og baráttuglatt lið, sem varðist af krafti," sagði Ferguson.