Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að sínir menn hafi spilað nánast fullkominn leik í dag þegar þeir unnu Bolton á útivelli, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni.
Kevin Davies kom Bolton yfir snemma leiks en Arsenal svaraði því með ótrúlegum leikkafla þar sem liðið nánast tjaldaði inni í vítateig Bolton og náði forystunni með tveimur mörkum á tveimur mínútum, frá Emmanuel Eboue og Nicklas Bendtner. Það var svo Denilson sem innsiglaði sigurinn undir lokin.
„Mér fannst þetta vera sannfærandi og glæsileg frammistaða liðsheildar sem sýndi styrk í öllum stöðum. Við vorum sterkir, andlega, líkamlega og tæknilega. Þetta var fullkomin frammistaða," sagði Wenger við BBC.
"Meira að segja í seinni hálfleiknum þegar við þurftum að leggja meiri áherslu á vörnina sýndum við af okkur mikla seiglu. Það er margt í leik liðsins sem segir mér að það sé að taka út mikinn þroska á stuttum tíma. Og það jákvæða er að við getum alltaf bætt okkur og ætlum okkur að gera það. Svo framarlega sem hugarfarið er rétt, er hægt að halda sínu striki. Menn fóru ekki á taugum við það að lenda undir í leiknum og það er afar ánægjulegt," sagði Wenger sem nú er með lið sitt á toppi úrvalsdeildarinnar.
Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn með Bolton og fékk gott færi til að jafna með skalla eftir hornspyrnu en brást bogalistin þar. Heiðar Helguson var varamaður hjá Bolton og kom ekki við sögu.