Ferguson: Við getum stöðvað Chelsea

Alex Ferguson mætir með sína menn á Stamford Bridge í …
Alex Ferguson mætir með sína menn á Stamford Bridge í sannkallaðan stórleik í dag. Reuters

Enda þótt Englands- og Evrópumeistarar Manchester United hafi farið rólega af stað á þessu keppnistímabili er knattspyrnustjórinn reyndi Alex Ferguson handviss um að sínir menn geti stöðvað langa sigurgöngu Chelsea á Stamford Bridge. Liðin mætast þar klukkan 13 í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea hefur ekki tapað í 84 deildaleikjum í röð á heimavelli sínum, Stamford Bridge, eða í hálft fjórða ár, og verða efstir í deildinni, vinni þeir leikinn í dag.

„Chelseamenn vita mæta vel að við getum sigrað þá og miðað við þá hæfileika sem búa í mínu liði er þetta ekki óyfirstíganleg hindrun. Það er mikið verk fyrir höndum og mínir menn eru tilbúnir. Við ætlum ekki að dragast aftur úr og lenda einhverjum níu stigum á eftir Chelsea, eða einhverjum öðrum, snemma á tímabilinu," sagði Ferguson við BBC.

Hann vildi líka leiðrétta fyrri ummæli í garð Chelsea. „Ég sagði aldrei að Chelsea væri með gamalt lið. Ég sagði að liðið væri reynslumikið en þegar leikmenn eru orðnir þrítugir eiga þeir ekki eftir að bæta sig mikið. En þeir hafa byrjað virkilega vel og aðeins tapað tveimur stigum til þessa," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert