Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United, var óhress með að hafa ekki náð að halda út og landa sigri gegn Chelsea í stórleiknum á Stamford Bridge. United var yfir lengst af en Salomon Kalou jafnaði fyrir Chelsea, 1:1, skömmu fyrir leikslok.
United missti þar með af því að verða fyrst liða í hálft fjórða ár til að vinna Chelsea í deildaleik á "Brúnni" en Park Ji-sung hafði komið liði Fergusons yfir strax á 18. mínútu.
„Við byrjuðum leikinn virkilega vel, réðum algjörlega ferðinni og hefðum átt að láta kné fylgja kviði þegar staðan var 1:0. Við hægðum aðeins á ferðinni og það voru ákveðin vonbrigði því það gaf Chelsea færi á að ná áttum og endurskipuleggja sinn leik fyrir síðari hálfleikinn.
Þeir settu Drogba inná, hann býr yfir gríðarlegum líkamlegum styrk, og þeir breyttu leik sínum með því að senda langar sendingar fram til hans. Við misstum boltann einum of oft í seinni hálfleiknum og gáfum Chelsea færi á að ná undirtökunum. Mér finnst við hafa misst af góðu tækifæri. Ef þeir leikmenn okkar sem ekki eru komnir í nægilega leikæfingu hefðu haft aðeins meiri kraft, þá hefðum við haldið þetta út," sagði Ferguson.
Edwin van der Sar, markvörður United, þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir aðeins hálftíma leik.