Reading fékk mark í forgjöf - myndband

Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku ekki með Reading …
Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku ekki með Reading um helgina. Reuters

Félagar Ívars Ingimarssonar og Brynjars Björns Gunnarssonar í enska 1. deildarliðinu Reading fengu óvæntan glaðning frá aðstoðardómara í leik sínum við Watford um helgina. Hann hreinlega gaf þeim fyrsta mark leiksins. Steve Coppell, stjóri Reading, er til í að láta endurtaka leikinn.

Leiknum lyktaði með 2:2-jafntefli en myndband af fyrsta „marki“ leiksins nýtur mikilla vinsælda á Youtube-vefnum. Á því sést Reading gera harða atlögu að marki Watford án þess þó að boltinn sé nálægt því að fara yfir marklínuna, en hann fór þó líklega yfir endalínuna.

Áhorfendur, leikmenn, þjálfarar og aðrir voru því steinhissa þegar annar aðstoðardómaranna veifaði flaggi sínu og hélt því fram að mark hefði verið skorað. Dómari leiksins ákvað því að dæma mark og Reading komst yfir með vægast sagt vafasömum hætti.

Myndband af markinu má sjá hér.

„Versta ákvörðun sem ég hef orðið vitni að“

Steve Coppell segir á heimasíðu Reading að augljóslega sé ekki um gilt mark að ræða.

„Ef ákveðið verður að endurtaka leikinn þá sé ég enga ástæðu til að mótmæla því. Ég efast um að það séu fordæmi fyrir þessu en ef það þarf að spila aftur gerum við það með glöðu geði. Ég finn til með Watford-mönnum og ég veit eiginlega ekki hvað ég get sagt til að hughreysta þá,“ sagði Coppell.

Markvörður Reading, Marcus Hahnemann, segir það hins vegar hættulegt skref að endurtaka leikinn.

„Ég held að allir myndu vilja endurtaka leikinn en hvar myndi þetta þá hætta? Ef dómarinn gerir mistök eigum við þá að endurtaka leikinn?“ sagði Hahnemann.

Stephen Hunt, leikmaður Reading, hafði aftur á móti gaman að þessu öllu saman.

„Þetta var geðveikt mark! Nei, þetta var líklega versta ákvörðun sem ég hef orðið vitni að. Við getum ekkert gert við því. Þetta voru ekki okkar mistök en hvað á maður að gera? Maður segir ekki „nei dómari, boltinn var ekki inni“,“ sagði Hunt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert