Kenny Dalglish, sá gamalkunni skoski knattspyrnumaður og síðar stjóri, vísar á bug þrálátum fregnum enskra fjölmiðla um að hann verði næsti knattspyrnustjóri Newcastle. Dalglish stýrði Newcastle í hálft annað ár fyrir rúmum áratug.
„Enginn frá félaginu hefur haft samband við mig og ég er ekki á leið þangað aftur. Það er leitt hvernig hlutirnir hafa farið úrskeiðis hjá Newcastle en nýr knattspyrnustjóri þar verður einhver annar en ég," sagði Dalglish við blaðið Evening Chronicle.
Dalglish er 57 ára gamall og hefur ekki komið að stjórnun liðs í átta ár en þá var hann um skamma hríð hjá Celtic í Skotlandi. Hann stýrði Liverpool frá 1985 til 1991 og var síðan með Blackburn Rovers í fjögur ár, þar sem liðið varð enskur meistari undir hans stjórn árið 1995.
Hann lék á sínum tíma 355 deildaleiki fyrir Liverpool og skoraði í þeim 118 mörk og þá skoraði Dalglish 30 mörk í 102 landsleikjum fyrir Skotland.