Nokkrum leikjum er lokið í 3. umferð ensku deildabikarkeppninnar. Jóhannes Karl Guðjónsson og félagar hans í 1. deildarliðinu Burnley slógu úrvalsdeildarlið Fulham út en Burnley hafði betur, 1:0, og lék Jóhannes allan tímann.
Ungt lið Arsenal lék Sheffield United sundur og saman en lokatölurnar á Emirates Stadium urðu, 6:0. Carlos Alberto Vela skoraði þrennu, Nicklas Bendtner skoraði tvö og Jack Wilshere eitt.
West Ham er úr leik en Íslendingaliðið beið lægri hlut fyrir 1. deildarliði Watford, 1:0, og skoraði Hayden Mullins sjálfsmark.
Framlenging er hafin í viðureign Stoke og Reading en staðan eftir venjulegan leiktíma var jöfn, 2:2. Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson eru báðir í byrjunarliði Reading.