Í kvöld fara fram tíu leikir í enska deildabikarnum í knattspyrnu. Þrjú stórvelda úrvalsdeildarinnar verða þar á ferðinni, sem og Íslendingaliðin Reading og Burnley sem mæta liðum úr úrvalsdeildinni.
Ljóst er að Arsenal, Liverpool og Manchester United hvíla fjölda lykilmanna í kvöld og Arsene Wenger hjá Arsenal hyggst tefla fram nánast hreinræktuðu unglingaliði gegn Sheffield United. Liverpool tekur á móti 2. deildarliðinu Crewe og Manchester United fær Middlesbrough í heimsókn.
Burnley, lið Jóhannesar Karls Guðjónssonar, tekur á móti Fulham og þeir Brynjar Björn Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson gætu fengið tækifæri með Reading sem sækir heim Stoke City, nýliðana í úrvalsdeildinni. Eins gæti Ívar Ingimarsson komið aftur inní liði Reading eftir að hafa misst af tveimur leikjum vegna veikinda.
Þá leikur Íslendingafélagið West Ham gegn Watford á útivelli og í Wales verður nágrannaslagur þegar Swansea tekur á móti Cardiff en bæði liðin leika í ensku 1. deildinni.
Aðrir leikir eru Leeds - Hartlepool, Rotherham - Southampton og Sunderland - Northampton.