Wenger gáttaður á ummælum Platinis

Arsene Wenger er skotspónn landa síns, Michels Platinis.
Arsene Wenger er skotspónn landa síns, Michels Platinis. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, kveðst vera steini lostinn á ummælum landa síns, Michels Platinis, forseta Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, í sinn garð í blaðaviðtali í Frakklandi.

Platini var í viðtali við franska blaðið Dauphine Libere um ýmis mál tengd knattspyrnunni í Evrópu og skaut þar föstum skotum að Wenger í tengslum við nokkur þeirra.

Um knattspyrnuna almennt sagði Platini: „Ég vil tala um fótboltann sjálfan, Wenger bara um viðskiptahliðina. Við verðum að hætta þessu Wengers-kjaftæði."

Um notkun myndavéla til að skera úr um vafaatriði í leikjum sagði Platini: „Ég vona að það verði aldrei tekið upp í fótboltanum. Ég yrði afar ánægður ef Wenger gæti aldrei nýtt sér slíkt."

Um óvæntan sigur CFR Cluj á Roma í Meistaradeildinni sagði Platini: „Þetta er það sem gerir fótboltann svo skemmtilegan. Þetta eru úrslitin sem menn eins og Wenger vilja ekki sjá, litlu liðin sigra þau stóru, því þeir hugsa bara um peninga."

„Ég er steini lostinn yfir því hve árásargjarn Platini er í minn garð. Rétt eins og aðrir þjálfarar styð ég þá hugmynd að nota myndbandatækni til að hjápa dómurum, og tel að UEFA komi þar að í veigamiklu hlutverki. Ég vil sjá réttlæti í íþróttunum og UEFA verður að standa vörð um það. Að sjálfsögðu styð ég það að félög séu vel rekin og fjárhagur þeirra sér í lagi. UEFA hlýtur að styðja það líka. Ég berst fyrir framtíð íþróttarinnar og skil ekki afhverju UEFA gerir lítið úr öllum hugmyndum sem eru frábrugðnar þeirra eigin," sagði Wenger við franska íþróttadagblaðið L'Equipe í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert