Óvænt úrslit litu dagsins ljós í ensku deildabikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld þegar 2. deildarliðið Brighton bar sigurorð af úrvalsdeildarfélaginu nýríka, Manchester City, í vítaspyrnukeppni eftir framlengdan leik.
City virtist stefna í sigur eftir að svissneski landsliðsmaðurinn Gelson Fernandes skoraði um miðjan síðari hálfleik. En einni mínútu fyrir leikslok jafnaði Glenn Murray fyrir Brighton, sem er í 13. sæti 2. deildar.
Joe Anyinsah kom síðan Brighton í 2:1 þegar 5 mínútur voru liðnar af framlengingunni en Stephen Ireland jafnaði, 2:2, í upphafi seinni hluta hennar. Því var gripið til vítaspyrnukeppni og þar vann Brighton, 5:3, og því samtals 7:5.
Leikurinn var liður í 64-liða úrslitum keppninnar en honum var frestað á dögunum vegna þátttöku City í UEFA-bikarnum. Brighton leikur gegn 1. deildarliði Derby County í 32ja liða úrslitum keppninnar.