Rodrigo Possebon, brasilíski knattspyrnumaðurinn hjá Manchester United, er ekki fótbrotinn eins og óttast var en hann var borinn af velli í leik liðsins gegn Middlesbrough í enska deildabikarnum í gærkvöld eftir ljóta tæklingu frá austurríska varnarmanninum Emanuel Pogatetz.
Possebon, sem er 19 ára gamall, þurfti aðhlynningu á vellinum í sex mínútur og fékk súrefni áður en hann var borinn útaf. Hann dvaldi á sjúkrahúsi í nótt. Manchester United tilkynnti í morgun á vef sínum að ekki væri um fótbrot að ræða en pilturinn ætti eftir að gangast undir frekari rannsóknir á meiðslunum.
Pogatetz fékk rauða spjaldið fyrir brotið og Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United lét hann heyra sína skoðun tæpitungulaust þegar hann gekk af velli.