Hull lagði Arsenal á Emirates Stadium

Daniel Cousin skorar fyrir Hull gegn Arsenal í kvöld.
Daniel Cousin skorar fyrir Hull gegn Arsenal í kvöld. Reuters

Nýliðar Hull gerðu sér lítið fyrir og lögðu Arsenal, 2:1, og það á Emirates Stadium, heimavelli Arsenal. Englandsmeistarar Manchester United höfðu betur gegn Bolton, 2:0,  Chelsea vann sannfærandi sigur á Stoke á útivelli, 2:0.

Arsenal komst yfir á 51. mínútu með sjálfsmarki frá Paul McShane en Geovanni og Daniel Cousin tryggðu gestunum frá Hull sætan sigur.

Eftir markalausan fyrri hálfleik í viðureign Manchester United og Bolton á Old Trafford náðu meistararnir að skora tvö mörk í seinni hálfleik. Cristiano Ronaldo skoraði það fyrra úr vítaspyrnu sem hann fékk á silfurfati og varamaðurinn Wayne Rooney skoraði síðara markið.

Chelsea vann sinn sjötta útisigur í röð þegar liðið sigraði Stoke á Britannia, 2:0. Jose Bosingwa og Nicolas Anelka skoruðu mörkin og með sigrinum komst Chelsea upp að hlið Everton í efsta sæti deildarinnar.

Carlton Cole og Matthew Etherington skoruðu mörk Íslendingaliðsins West Ham sem gerði góða ferð á Craven Cottage og sigraði heimamenn í Fulham, 2:1. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik en Danny Murphy náði að laga stöðuna fyrir Fulham í seinni hálfleik en Fulham lék manni færri allan seinni hálfleikinn því undir lok fyrri hálfleiks var Andy Johnson rekinn af velli.

Aston Villa gengur allt í haginn í deildinni en liðið vann sinn þriðja leik í röð þegar það bar sigurorð af Sunderland á Villa Park. Sunderland komst yfir með marki frá Djibril Cisse eftir 9 mínútna leik en áður en fyrri hálfleikurinn var allur höfðu Ashley Young og John Carew skorað tvö mörk fyrir heimamenn.

Hrakfarir Newcastle halda áfram en Newcastle varð að sætta sig við 2:1 tap á heimavelli gegn Blackburn. Christopher Samba og Roque Santa Cruz komu Blackburn í 2:0 í fyrri hálfleik en Michael Owen minnkaði muninn fyrir heimamenn með marki úr vítaspyrnu í byrjun seinni hálfleiks.

Svíinn Jonas Olsson tryggði nýliðum WBA sætan sigur á Middlesbrough á Riverside, 1:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert