Everton hefur lagt inn áfrýjunarbeiðni til enska knattspyrnusambandsins vegna brottreksturs Ástralans Tim Cahill í viðureign Everton og Liverpool á laugardaginn.
Mike Riley sendi Cahill af velli fyrir brot á Xabi Alonso á 80. mínútu leiksins og var David Moyes knattspyrnustjóri Everton afar ósáttur með þá ákvörðun dómarans.
,,Ég er er búinn að skoða atvikið og ég get ekki séð að hann hafi átt að fá rautt spjald fyrir þessa tæklingu. Hann hefði verðskuldað gult spjald en ég var mjög hissa þegar Riley dró rauða spjaldið upp úr vasa sínum,“ segir Moyes á vef félagsins.
Standi rauða spjaldið kemur Cahill til að fá þriggja leikja bann og missir af leikjum sinna manna gegn Newcastle, Arsenal og Manchester United.