Rafael Benítez stýrir liði Liverpool í 250. skipti í kvöld þegar það tekur á móti PSV Eindhoven í Meistaradeild Evrópu. Hann varar sína menn við því að vanmeta hina hollensku andstæðinga sína.
Liverpool hefur farið vel af stað, byrjun liðsins á tímabilinu er sú besta í 12 ár, en PSV hefur valdið vonbrigðum og tapaði 0:3 heima fyrir Atlético Madrid í fyrstu umferð riðlakeppninnar.
„Þegar liðið spilar vel og vinnur leiki, og allir tala um hversu góðir menn séu, er nauðsynlegt að halda ró sinni og fá alla til að einbeita sér eingöngu að næsta verkefni. En það er betra að reyna að hafa stjórn á miklum væntingum en að sitja á botninum og reyna að koma mönnum í gang," sagði Benítez við BBC í dag.
Liverpool gekk vel gegn PSV í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum þegar liðin mættust bæði í riðlakeppninni og 8-liða úrslitunum en Benítez sagði að lítið mark væri takandi á því.
„PSV er allt annað lið í dag, með allt annan þjálfara, en þegar við mættum þeim síðast í keppninni. Vissulega höfum við sigrað Hollendingana tvisvar á Anfield, en þá er vissara að gæta að sér því þá gætu menn farið að gera ráð fyrir sigrinum. Það er heldur ekkert jákvætt fyrir okkur að PSV skyldi tapa fyrsta leik sínum í keppninni því nú þarf liðið nauðsynlega á góðum úrslitum að halda. Væntanlega munu þeir verjast og reyna að beita skyndisóknum gegn okkur," sagði Benítez.
Meðal leikmanna PSV eru Jan Kronkamp, fyrrum leikmaður Liverpool, og Andreas Isaksson, sænski landsliðsmarkvörðurinn sem lék með Manchester City.
Þessir skipa 18 manna hóp Liverpool í kvöld: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Skrtel, Dossena, Aurelio, Babel, Benayoun, Gerrard, Mascherano, Alonso, Kuyt, Torres, Keane, Cavalieri, Lucas, Riera.