Benítez: City fær ekki Gerrard

Steven Gerrard fagnar 100. marki sínu fyrir Liverpool.
Steven Gerrard fagnar 100. marki sínu fyrir Liverpool. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur sent forráðamönnum Manchester City skýr skilaboð um að þeir ættu ekki að eyða tíma sínum í að reyna að kaupa Steven Gerrard, fyrirliða sinn. Hann verði aldrei látinn af hendi.

Það hljóp á snærið hjá City í haust þegar arabískir auðkýfingar keyptu félagið og þeir ætla sér stóra hluti og reyna að krækja í marga af bestu leikmönnum heima. Gerrard hefur verið nefndur til sögunnar ásamt fleirum.

„Gerrard er heimamaður og Liverpool er hans félag. Hann er lykilmaður okkar og ánægður hér. Við erum stöðugt að bæta okkur ár frá ári og hann veit að hann getur unnið titla með okkur. Það er aðalmálið," sagði Benítez við Sky Sports í dag.

Hann sagði að Manchester City ætti vissulega góða möguleika á að komast í fremstu röð eftir eigendaskiptin. "Það er ekki gott að segja hvað það tekur þá langan tíma að verða nógu sterkir til að keppa um titla. City er gott lið með góða leikmenn og góðan stjóra. Þeir geta hæglega komist í fremstu röð en það eru fleiri lið sem stefna þangað.

Það þarf mikla þolinmæði og ég er viss um að hjá Manchester City mun hún ráða ferðinni. Þeir munu reyna að kaupa leikmenn í janúar en það er ekki víst að það verði auðvelt. Félög munu setja hærra verð á þá menn sem þeir ásælast svo við verðum að sjá til hvernig það þróast," sagði Benítez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert