Skýrt er frá því í enska dagblaðinu Daily Mail að minnst tvö tilboð í knattspyrnulið Everton séu í farvatninu.
Engum á að koma á óvart að bæði tilboðin koma frá ríkum fjárfestum í Mið-Austurlöndum. Fullyrðir blaðið að bæði tilboð séu það langt á veg komin að sala gæti verið yfirstaðin á næstu vikum.
Forseti og helsti eigandi liðsins, Bill Kenwright, lýsti því yfir á stjórnarfundi fyrir mánuði að hann vildi selja og kom það af stað áhuga erlendra fjárfesta en kreppa sú er ríkir víða á vesturlöndum hefur lítið sem ekkert komið við sögu í Austurlöndum heldur þvert á móti.