Flest bendir til þess að Martin Skrtel, miðvörðurinn öflugi hjá Liverpool, hafi slitið krossband í hné í leik liðsins gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Reynist það rétt, verður hann ekki meira með liðinu á þessu keppnistímabili.
Skrtel, sem er 23 ára gamall Slóvaki, kom til Liverpool frá Zenit St. Pétursborg í janúar og hefur verið geysisterkur í miðri vörn liðsins þar sem hann og Jamie Carragher hafa leikið mjög vel saman. Meiðsli hans opna væntanlega dyrnar fyrir hinn danska Daniel Agger á nýjan leik.
"Hann fer til sérfræðings á þriðjudag og þá fáum við skýrari mynd varðandi meiðslin og hvenær raunhæft sé að hann spili fótbolta á ný," sagði Ian Cotton, talsmaður Liverpool, við BBC.