„Þetta hefur ekki áhrif á West Ham,“ er haft eftir ónafngreindum stjórnarmanni í félaginu á vef BBC í dag og á hann þar við ástand fjármálamarkaðarins á Íslandi og þá staðreynd að Landsbankinn er kominn undir stjórn Fjármálaeftirlitsins.
Björgólfur Guðmundsson, eigandi West Ham, er stærsti hluthafinn í Landsbankanum, en stjórnarmaðurinn ónafngreindi segir að þó svo ein af fjárfestingum Björgólfs hafi farið illa hafi það engin áhrif á félagið.
„West Ham er undir verndarvæng Björgólfs og hann á veruleg auðævi á mörgum stöðum, mest erlendis, og því hefur þetta ekki áhrif á West Ham. Björgólfur stendur enn uppi og á miklar fjárfestingar,“ segir stjórnarmaðurinn.
Orðrómur hefur verið í dag um að félagið sé til sölu, en stjórnarmaðurinn harðneitar því.