Redknapp: Kaupum ekki Traore

Armand Traore hefur betur í baráttu við Wes Brown hjá …
Armand Traore hefur betur í baráttu við Wes Brown hjá Manchester United. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Portsmouth, segir að útilokað sé að félagið muni kaupa Armand Traore, hinn 19 ára gamla bakvörð sem félagið fékk lánaðan frá Arsenal í sumar og hefur haldið Hermanni Hreiðarssyni á varamannabekknum undanfarnar vikur.

Traore er í láni hjá Portsmouth út þetta tímabil og hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með liðinu, í stöðu vinstri bakvarðar.

„Það eru engar líkur, alls engar líkur á því að Traore ílendist hjá okkur. Arsenal myndi aldrei selja hann. Arsene Wenger lánaði okkur hann til þess að hann öðlaðist reynslu, og honum hefur gengið frábærlega. Hann er nýorðinn 19 ára, þeir ætla ekki að selja hann og okkur hefur ekki flogið það í hug," sagði Redknapp við The News.

Annar vinstri bakvörður, Nadir Belhadj frá Alsír, er í láni hjá Portsmouth og Redknapp kveðst hafa mikinn hug á að halda honum. "Belhadj hefur líka staðið sig mjög vel og er með frábært hugarfar," sagði Redknapp.

Hermann Hreiðarsson er farinn að hugsa sér til hreyfings frá Portsmouth af þessum sökum og talið er líklegt að hann verði seldur frá félaginu þegar opnað verður fyrir félagaskiptin um áramótin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert