Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, viðurkenndi í dag að sér og Frank Lampard, miðjumanni Chelsea, gengi illa að ná saman í leikjum með enska landsliðinu í knattspyrnu.
Það hefur vakið athygli og furðu undanfarin misseri hvað þessum tveimur snjöllu miðjumönnum hefur gengið illa að spila saman á miðjunni með landsliði Englands. Lampard átti stórleik gegn Króatíu í síðasta mánuði, þegar England vann 4:1 í Zagreb, en þá lék Gerrard ekki með vegna meiðsla. Þeir léku síðan saman gegn Kasakstan á laugardaginn og þrátt fyrir 5:1 sigur Englands var samvinna þeirra ekki góð.
„Við höfum báðir látið hafa eftir okkur að við höfum ekki náð nógu vel saman en við leggjum hart að okkur á æfingum liðsins að bæta úr því. En þetta er ekki stærsta málið í liðinu. Við erum með frábæran þjálfara og höfum trú á að við náum langt. Við munum einbeita okkur að hverjum leik fyrir sig," sagði Gerrard við Sky Sports í dag.
Vangaveltur hafa verið uppi um að Capello setji Gerrard útúr byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Hvít-Rússum á miðvikudag af þessum sökum. England er með 9 stig eftir fyrstu þrjá leikina í undankeppni HM og myndi með sigri í Minsk ná verulega góðri stöðu í riðlinum.