Skotinn David Moyes skrifaði í dag undir nýjan samning til fimm ára sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Everton. Þar með er óvissunni um framhaldið hjá honum eytt.
Moyes er 45 ára gamall og hefur verið við stjórnvölinn hjá Everton frá árinu 2002 en á þeim tíma hefur hann farið með liðið úr sífelldri fallbaráttu í slag um Evrópusæti.
Moyes vakti fyrst athygli þegar hann stýrði liði Preston í fjögur ár, frá 1998 til 2002, og náði þar góðum árangri. Sjálfur var hann leikmaður í 18 ár, fyrstu árin með Celtic en síðustu fimm árin lék hann með liði Preston og í Skotlandi spilaði hann lengst með Dunfermline.
Megnið af sínum ferli sem leikmaður, eða frá 22 ára aldri, hafði Moyes þó lagt grunninn að því að þjálfa og stjórna liðum sjálfur með því að sækja þjálfaranámskeið og leggja sig í líma við að læra af þeim knattspyrnustjórum sem hann spilaði hjá.