Hefði átt að kýla hann fastar

Cantona sagði skilið við fótboltann 31 árs gamall og snéri …
Cantona sagði skilið við fótboltann 31 árs gamall og snéri sér að strandbolta. Reuters

Knattspyrnugoðsögnin Eric Cantona fer um víðan völl í viðtali við tímaritið Four-four-two og dregur ekkert undan. Þar segir hann m.a. frá því þegar hann réðst á áhorfanda með karate-sparkinu fræga, hvers vegna hann fór frá Leeds til Manchester United, og hvers vegna hann lék ávallt með uppbrettan kraga.

Cantona varð margfaldur Englandsmeistari með Manchester United á síðastliðnum áratug eftir að hann kom til liðsins frá Leeds United, en hjá þeim hvítklæddu var hann aðeins eitt tímabil.

„Við Wilkinson knattspyrnustjóri áttum ekki samleið. Við vildum spila mismunandi fótbolta. Ég er Manchester-týpa en hjá Leeds vildu menn sparka boltanum langt og hlaupa á eftir honum,“ sagði Frakkinn.

Til Manchester-borgar kom hann árið 1992 og fljótlega vann hann hug og hjörtu stuðningsmanna United um víða veröld. Hann er heimsfrægur fyrir snilli sína á vellinum, og af mörgum talinn besti erlendi leikmaður sem spilað hefur í ensku úrvalsdeildinni, en hann er kannski enn frægari fyrir það að hafa ráðist á stuðningsmann Crystal Palace eftir að hafa verið rekinn út af í leik gegn liðinu.

Cantona stökk upp og sparkaði í áhorfanda sem hafði kallað ókvæðisorðum að honum, og kýldi hann svo. Árásin varð til þess að hann var dæmdur í átta mánaða keppnisbann en Cantona sér þó ekki eftir atvikinu.

Ef ég vildi sparka í áhorfanda þá gerði ég það

„Ég kýldi hann en bara ekki nógu fast. Ég hefði átt að kýla hann fastar,“ sagði Cantona.

„Ég stæri mig ekki af því að vera skynsamur maður. Ég geri bara það sem ég vil. Og ef ég vildi sparka í áhorfanda þá gerði ég það. Ég er engin fyrirmynd. Ég er enginn kennari sem sýnir fólki hvernig á að haga sér. Því meira sem maður sér því betur veit maður að lífið er eins og sirkus,“ bætti Cantona við.

Það var kalt úti

Í viðtalinu útskýrir hann líka vörumerki sitt, uppbrettan kraga, sem margir ungir knattspyrnumenn hermdu eftir á sínum tíma.

„Ég fór í treyjuna. Það var kalt úti. Kraginn var uppbrettur og ég lét hann bara vera þannig. Svo unnum við leikinn og þá varð þetta bara vani að spila með uppbrettan kraga,“ sagði Cantona.

Hann varð Englandsmeistari með United árin 1992-94, 1996 og 1997 auk þess að verða tvisvar bikarmeistari. Hann var kjörinn besti leikmaður Englands árin 1994 og 1996, árin fyrir og eftir karatesparkið fræga.

Cantona tók líka karatespörk inná vellinum. Kraginn er að sjálfsögðu …
Cantona tók líka karatespörk inná vellinum. Kraginn er að sjálfsögðu uppbrettur. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert