Fernando Torres og Ryan Babel gangast undir skoðun hjá læknaliði Liverpool í dag en báðir urðu þeir fyrir meiðslum með landsliðum sínum í gærkvöld. Torres þurfti að hætta leik með Spánverjum eftir 17 mínútur gegn Belgum og Babel haltraði af velli eftir 27 mínútur í leik með Hollendingum gegn Norðmönnum.
,,Um leið og Fernando og Ryan snúa til baka þá verða þeir sendir í skoðun hjá okkar læknaliði og eftir að hafa greint meiðslin þá getum við sagt um það hversu lengi þeir verða frá,“ sagði Ian Cotton talsmaður Liverpool við fjölmiðla í morgun.
Talið er að Torres hafi tognað aftan í læri og hann gæti orðið frá í allt að þrjá vikur sem þýðir að hann gæti misst af leik gegn sínum gömlu félögum í Atletico Madrid í Meistaradeildinni.