Ferguson: Hefði aldrei tekið við enska liðinu

Alex Ferguson segir að Fabio Capello hafi staðið sig virkilega …
Alex Ferguson segir að Fabio Capello hafi staðið sig virkilega vel. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að það hefði aldrei komið til greina hjá sér að gerast landsliðsþjálfari Englands. Fyrrum framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins, David Davies, upplýsti í ævisögu sinni að hann hefði þrívegis rætt við Ferguson um að taka starfið að sér. Það hefði verið árin 1996, 1999 og 2000.

Þegar Ferguson var spurður um þetta í dag neitaði hann að staðfesta að hann hefði fengið slík tilboð en sagði að það hefði aldrei komið til greina hjá sér hvort eð er að fara í viðræður um starfið.

„Það var ekki minnsti möguleiki á því," sagði Ferguson, sem einnig var nefndur til sögunnar eftir að Steve McClaren mistókst að koma Englandi í úrslitakeppni EM í lok síðasta árs. Þá var Fabio Capello ráðinn og hann hefur byrjað glæsilega með enska liðið. Ferguson er ánægður með hann.

„Fabio hefur staðið sig virkilega vel. Hann tók áskoruninni, fór vel yfir stöðuna og hefur tekið til hendinni á sinn hátt. Það þurfti hann að gera. Hann býr yfir andlegum styrk og getur tekist á við hvað sem er," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert