Arsenal og Liverpool náðu að knýja fram sigra í leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en bæði stórliðin lentu undir á heimavelli og voru í basli framá lokamínútur. Arsenal sigraði Everton, 3:1, og Liverpool lagði Wigan, 3:2, en Wigan komst tvívegis yfir í leiknum.
Liverpool fór þá aftur uppað hlið Chelsea á toppnum með 20 stig en bæði lið eru enn ósigruð. Arsenal renndi sér uppí þriðja sætið með 16 stig en Hull er með 14 stig og á leik til góða gegn West Ham á morgun.
Þrír aðrir leikir voru í deildinni og enduðu þeir allir 0:0. Þannig gengu leikirnir fyrir sig - til að sjá ítarlegra yfirlit um gang mála, smellið á "Bein lýsing", en leikirnir voru allir í beinni textalýsingu hér á mbl.is:
Arsenal - Everton 3:1 - Bein lýsing.
Leon Osman kom Everton yfir á 9. mínútu en Samir Nasri jafnaði fyrir Arsenal í byrjun síðari hálfleiks. Robin van Persie kom Arsenal í 2:1 á 70. mínútu og Theo Walcott skoraði, 3:1, í uppbótartíma.
Aston Villa - Portsmouth 0:0 - Bein lýsing.
Hermann Hreiðarsson var meðal varamanna Portsmouth og kom ekki við sögu.
Bolton - Blackburn 0:0 - Bein lýsing.
Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton en Heiðar Helguson er meiddur. Grétar fékk gula spjaldið á 34. mínútu og var skipt af velli á 77. mínútu.
Fulham - Sunderland 0:0. - Bein lýsing.
Liverpool - Wigan 3:2 - Bein lýsing.
Amr Zaki kom Wigan yfir á 29. mínútu þegar hann hirti boltann af Daniel Agger og skoraði. Dirk Kuyt jafnaði fyrir Liverpool á 37. mínútu. Zaki var hinsvegar aftur á ferð á 45. mínútu og kom Wigan yfir á nýjan leik. Eftir þunga pressu Liverpool náði Albert Riera að jafna, 2:2, á 80. mínútu. Dirk Kuyt skoraði síðan aftur, 3:2, á 85. mínútu.
Chelsea burstaði Middlesbrough, 5:0, á útivelli í fyrsta leik dagsins.
Leikur Manchester United og WBA hefst síðan kl. 16.30.