Chelsea gjörsigraði Middlesbrough á útivelli, Riverside-leikvanginum í Middlesbrough, í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Lokatölur urðu 5:0 fyrir Lundúnaliðið sem trónir áfram taplaust á toppi deildarinnar.
Chelsea er komið með 20 stig eftir 8 leiki en Liverpool er með 17 stig eftir 7 leiki, mætir Wigan á heimavelli í dag og getur því náð Chelsea að stigum á ný.
Salomon Kalou kom Chelsea yfir á 14. mínútu, staðan 0:1 og var þannig í hálfleik.
Chelsea gerði nánast útum leikinn í byrjun síðari hálfleiks því Juliano Belletti skoraði á 51. mínútu og Kalou bætti við sínu öðru marki tveimur mínútum síðar, 0:3.
Leikmenn Lundúnaliðsins voru síður en svo hættir. Frank Lampard skoraði fjórða markið á 63. mínútu og Florent Malouda bætti við því fimmta fjórum mínútum síðar, 0:5.