Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, kvaðst stoltur af því hvernig lið sitt náði að snúa leiknum gegn Everton sér í vil eftir að hafa lent 0:1 undir. Arsenal vann leikinn á Emirates-leikvanginum, 3:1.
„Sigurinn var sanngjarn og ég er afar stoltur af því hvernig liðið vann sig útúr vandræðunum. Við tókum leikinn í okkar hendur síðustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik. Ég þurfti að breyta liðinu talsvert fyrir leikinn en við erum með þéttan hóp þar sem allir geta spilað. Það var afar mikilvægt fyrir okkur að ná þremur stigum til að halda okkur í toppbaráttunni," sagði Wenger við fréttamenn eftir leikinn.