Benítez: Ekki hvort, heldur hvenær

Daniel Agger miðvörður Liverpool og Antonio Valencia kantmaður Wigan eigast …
Daniel Agger miðvörður Liverpool og Antonio Valencia kantmaður Wigan eigast við í leiknum í gær. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að það hafi ekki verið spurning hvort lið sitt myndi skora og snúa við blaðinu í leiknum gegn Wigan í gær, heldur hvenær. Wigan komst í 1:0 og 2:1 en Liverpool knúði fram sigur, 3:2, með tveimur mörkum á lokakafla leiksins.

„Ef við lítum á leikinn í heild þá spiluðum við vel, líka á þeim kafla þegar við lentum 1:2 undir. Seinni hálfleikurinn var algjör einstefna því við sóttum og sóttum. Þetta var ekki spurning hvort, heldur hvenær, því við erum með öfluga leikmenn sem hafa trú á því að þeir haldi áfram að skapa sér færi og skori mörk," sagði Benítez við Sky Sports.

Þegar 15 mínútur voru eftir og staðan enn 2:1 fyrir Wigan var Antonio Valencia, leikmaður liðsins, rekinn af velli og það hafði eflaust sitt að segja á lokakaflanum. Hann fékk þá sitt annað gula spjald í leiknum.

„Fyrra spjaldið sem hann fékk var kannski hæpið, en í mínum augum átti hann hvort eð er að fá beint rautt fyrir seinna atvikið, sem var stórhættuleg tækling," sagði Benítez og hrósaði Daniel Agger, danska miðverðinum, sem átti alla sök á fyrra marki Wigan. Hann missti þá boltann á eigin vítateig til Amr Zaki  sem skoraði auðveldlega.

„Hann gerði mistök, reyndi að leika á mótherjann og missti boltann. En hann sýndi mikinn karakter skömmu síðar þegar hann brunaði upp og lagði upp okkar fyrsta mark," sagði Rafael Benítez. Lið hans er áfram jafnt Chelsea á toppi deildarinnar með 20 stig og hefur enn ekki tapað á tímabilinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert