Knattspyrnukappinn Ívar Ingimarsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á laugardaginn í leik Reading gegn Preston á útivelli. Stephen Hunt kom Reading yfir, en Ívar jafnaði metin fyrir heimamenn áður en Stephen Elliott skoraði sigurmark Preston.
„Það kom sending fyrir og ég hefði getað hreinsað, en ég heyrði markmanninn kalla og hætti því við. Boltinn fór samt í mig og í netið. Eftir á að hyggja hefði ég átt að hreinsa frá, þrátt fyrir kallið, en það er of seint að hugsa um það núna. Þetta er búið og gert,“ sagði Ívar svekktur. Reading situr í þriðja sæti 1. deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Wolves.