Xabi Alonso hjá Liverpool segir ljóst að liðið sé komið í vænlega stöðu sigri þeir Chelsea á sunnudaginn kemur. Slíkur sigur sanni að Liverpool eigi raunhæfa möguleika á titlinum.
Chelsea hefur nú leikið 86 leiki í ensku úrvalsdeildinni án taps og tölfræðin fyrir leikinn er Liverpool vart mikil í vil. Aðeins einu sinni í síðustu sextán viðureignum félaganna hefur Liverpool farið af velli með þrjú stig og síðasta félagið til að yfirgefa Stamford Bridge með þann stigafjölda var Arsenal í febrúar 2004.
En Xabi Alonso lætur það ekkert á sig fá. „Enginn spáði því að sigur ynnist á Manchester United en það gekk og það fyllti allt félagið sjálfstrausti. Þetta er bara ein enn stór þolraun en hana verðum við að ganga gegnum til að sýna fólki að við ætlum að berjast um titilinn í vetur.“
Liverpool hefur heldur ekki tapað mörgum leikjum síðustu misserin. Það var einmitt Chelsea sem olli síðasta tapi liðsins í Meistaradeildinni í apríl.