Ramon Calderon, forseti spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, sagði í dag að hann væri endanlega hættur að reyna að fá Cristiano Ronaldo til félagsins frá Manchester United.
Sú framhaldssaga hefur verið lengi í gangi og margir telja að "fýlusvipurinn" sem virðist jafnan á andliti Ronaldos þessa dagana, einkum þegar hann fagnar mörkum, séu hans þöglu mótmæli við að hafa ekki verið seldur til spænska stórveldisins í sumar.
„Þetta mál er úr sögunni. Við fórum vel yfir það síðasta vetur. Manchester United gaf skýrt til kynna að félagið vildi ekki selja leikmanninn og við munum ekki aðhafast frekar gagnvart jafn vinveittu félagi. Við sættum okkur við það að Ronaldo verði um kyrrt í Manchester. Málið er dautt - ekki bara í komandi janúarmánuði, heldur um alla framtíð, tel ég. Við munum ekki taka það upp á ný, nema svo fari að Manchester United ákveðið að selja leikmanninn," sagði Calderon við Sky Sports í dag.