Árlegur hlutafélagsfundur var haldinn í gær hjá Arsenal liðinu þar sem þjálfari liðsins, Arséne Wenger sat ásamt hluthöfum og æðstu stjórnarnmönnum fyrir svörum. Wenger var gagnrýndur fyrir að vera með þunnskipaðan hóp reynslulausra leikmanna, en Wenger svaraði fullum hálsi.
„Þið eruð allir mjög þögulir, líkt og Emirates-leikvangurinn á laugardögum. Mér finnst liðið ekki fá nægilegan stuðning frá fjölmiðlum né áhangendum. Liðið mun skila sínu á vellinum, en því yngri sem þú ert, því meiri stuðning þarftu. “
Wenger sagði í kjölfarið að hann teldi meiri þörf á stuðningi í formi hvatningarópa á vellinum, heldur en í formi peninga til leikmannakaupa og minnti Arsenal aðdáendur á, að lið þeirra nyti alþjóðlegrar virðingar fyrir þá tegund fótbolta sem liðið spilaði. Einnig minnti hann hluthafana á, að hlutur þeirra hefði hækkað úr 400 pundum í 7500 á þeim tólf árum sem hann hefði verið við stjórnvölinn.