Liverpool gerði það sem engu liði hefur tekist að gera í ensku úrvalsdeildinni síðustu 4 árin og 8 mánuðina, það er að leggja Chelsea að velli á Stamford Bridge. Eftir að hafa spilað 86 leiki í röð án taps á heimavelli í úrvalsdeildinni tapaði Chelsea, 1:0, fyrir Liverpool, og skoraði Spánverjinn Xabi Alonso sigurmarkið á 10. mínútu leiksins.
Liverpool er þar með komið í efsta sæti deildarinnar en eftir níu leiki er liðið með 23 stig en Chelsea og Hull koma næst með 20 stig. Markið sem réði úrslitum skoraði Alonso en fast skot hans rétt utan teigs hafði viðkomu í Bosingwa og var Petr Cech varnarlaus í marki Chelsea. Leikurinn þróaðist á þann hátt að Chelsea var miklu meira með boltann en vörn Liverpool var mjög öflug og það var aðeins einu sinni sem Chelsea náði að skapa sér hættulegt færi þegar Ashley Cole skaut framhjá af stuttu færi.
Liverpool lék af mikilli skynsemi og af og til átti liðið hættuleg upphlaup. Minnstu munaði að Alonso skoraði annað mark fyrir Liverpool en skot hans beint úr aukaspyrnu eftir klukktímaleik small í stönginni.