Sænski knattspyrnumaðurinn Freddie Ljungberg mun skrifa undir samning við bandaríska atvinnumannaliðið Seattle Sounders á morgun. Ljungberg, sem er 31 árs gamall, var leystur undan samningi við West Ham í ágúst en hann samdi við Íslendingaliðið til fjögurra ára í fyrra.
Ljungberg gerði garðinn frægan með Arsenal. Hann lék með liðinu frá 1998 til 2007 og varð enskur meistari með því í tvígang, 2002 og 2004.
Hann ákvað síðan að taka tilboði Eggerts Magnússonar fyrrum stjórnarformanns West Ham á síðasta ári en Svíinn knái náði sér aldrei á strik með liðinu og þegar West Ham þurfti að grípa til niðurskurðar í sumar var ákveðið leysa hann undan samningi.
Ljungberg lagði landsliðsskóna á hilluna eftir Evrópumótið í sumar en alls lék hann 75 leiki með sænska landsliðinu og skoraði í þeim 14 mörk.