Hermann: Hundleiðinlegt að sitja á bekknum

Hermann Hreiðarsson í baráttu við Carlos Tevez á síðustu leiktíð.
Hermann Hreiðarsson í baráttu við Carlos Tevez á síðustu leiktíð. Reuters

,,ÞAÐ eina sem ég get sagt um Harry Redknapp er að hann skilaði frábæru starfi hjá Portsmouth. Ég óska honum alls hins besta og vonandi gengur þetta vel hjá honum,“ sagði Hermann Hreiðarsson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Portsmouth, við Morgunblaðið í gær.

Hermann og félagar hans í liðinu fengu skýr tilmæli frá forráðamönnum Portsmouth í gær um að tjá sig ekki um brotthvarf knattspyrnustjórans Redknapps frá félaginu en sem kunnugt er hætti Redknapp skyndilega hjá Portsmouth um helgina og tók við stjórastöðunni hjá Tottenham.

Hermann, sem varð bikarmeistari með Portsmouth síðastliðið vor og lék stórt hlutverk með suðurstrandarliðinu, hefur mátt þola mikla bekkjarsetu á þessari leiktíð og það í fyrsta sinn á ferli sínum. Spurður út þá staðreynd sagði Eyjamaðurinn:

,,Ég mun ræða mín mál við þann nýja stjóra sem tekur við og ég veit svo sem ekkert hver það verður. Það getur alveg eins verið að Tony Adams og Joe Jordan verði við stjórnvölinn en ég veit jafnmikið og þú. Ef ég held áfram að vera á bekknum þá er ekki spurning að ég mun reyna að komast í burtu í janúarglugganum,“ sagði Hermann.

,,Það er hundleiðinlegt að sitja á bekknum leik eftir leik. Ég hef aldrei kynnst þessu áður og ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að haga mér.“

,,Ég vil auðvitað helst vera áfram í úrvalsdeildinni. Ég er í fínu líkamlegu ástandi og tel mig nógu góðan til að spila í þeirri deild. Þrátt fyrir að hafa verið mikið á bekknum þá er ég í góðu leikformi enda búinn að spila nokkra leiki með landsliðinu og hef komið við sögu í einum og einum leik með Portsmouth.

Sjá ítarlegra viðtal við Hermann í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka