Tony Adams: Minn tími er kominn

Tony Adams og Harry Redknapp á gleðistundu eftir að Portsmouth …
Tony Adams og Harry Redknapp á gleðistundu eftir að Portsmouth tryggði sér sigur í bikarnum í vor. Reuters

Tony Adams var nú rétt í þessu ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Portsmouth í stað Harry Redknapps sem tekinn er við stjórastöðunni hjá Tottenham. Samningur Adams við Portsmouth er til tveggja og hálfs árs.

Adams hefur verið aðstoðarmaður Redknapps hjá Portsmouth frá árinu 2006 en þessi fyrrum leikmaður Arsenal og enska landsliðsins var um tíma knattspyrnustjóri hjá Wycombe.

,,Þetta er frábært tækifæri og þetta er mikill heiður fyrir mig,“ sagði Adams á fréttamannafundi í dag. ,,Ég er mjög spenntur og get varla beðið eftir því að taka til starfa. Harry skilaði frábæru starfi sem erfitt verður að leika eftir en ég mun gera mitt besta. Ég tel minn tíma vera kominn og er tilbúinn í slaginn,“ sagði Adams.

Adams segist hafa leitað ráða hjá fyrrum lærimeistara sínum hjá Arsenal, Arsene Wenger. ,,Ég ræddi við Arsene í gærkvöld og fékk ráð hjá honum. Hann sagði; Velkominn til helvíti. Ég sagði á móti; Þú ert hræddur af því ég er kominn í keppni við þig.“

Fyrsti leikur Portsmouth undir stjórn Adams er enginn smáleikur en Portsmouth sækir topplið Liverpool heim á Anfield annað kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert