Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði að sínir menn hefðu leikið frábærlega gegn Tottenham í kvöld en síðan kastað frá sér öruggum sigri á barnalegan hátt.
Arsenal var yfir, 4:2, þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma. Þá skoraði Jermaine Jenas fyrir Tottenham og Aaron Lennon jafnaði síðan metin á fjórðu mínútu í uppbótartíma, 4:4.
„Ég er reiður," sagði Wenger við Sky Sports eftir leikinn. „Við lékum frábærlega en uppskárum lítið miðað við það. Við ætluðum okkur sigur og vorum gæðaflokki ofar en Tottenham, en náðum samt ekki í þrjú stig. Við buðum uppá þetta. Á lokakaflanum áttum við að halda boltanum og spila út leiktímann en í stað þess gáfum við á okkur höggstað með því að reyna að skora fimmta og sjötta markið. Þetta var barnalegt. Við erum með geysiefnilegt lið og menn læra sína lexíu af leik eins og þessum.
Nágrannaslagir geta farið á þennan veg og svona er fótboltinn. Tottenham uppskar ríklega miðað við þau markskot sem liðið átti í leiknum," sagði Wenger.