Liverpool er áfram á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir sigur á Portsmouth, 1:0, á Anfield í kvöld. Arsenal og Tottenham skildu jöfn, 4:4, í ótrúlegum nágrannaslag á Emirates-leikvanginum, og Manchester United sigraði West Ham, 2:0, á Old Trafford.
Liverpool er áfram eina ósigraða liðið í deildinni og það var fyrirliðinn Steven Gerrard sem tryggði sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 76. mínútu. Hermann Hreiðarsson var varamaður hjá Portsmouth en kom ekki við sögu.
Nágrannaslagurinn á Emirates stóð svo sannarlega undir væntingum. David Bentley kom Tottenham yfir á 13. mínútu með óvæntu skoti langt utan af velli. Mikael Silvestre jafnaði með skalla á 37. mínútu og William Gallas gerði annað skallamark fyrir Arsenal, 2:1, á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Emmanuel Adebayor skoraði, 3:1, en Darren Bent svaraði um hæl, 3:2. Robin van Persie var aðeins mínútu að koma Arsenal aftur tveimur mörkum yfir, 4:2. Þegar mínúta var eftir skoraði Jermaine Jenas fyrir Tottenham, 4:3, og gífurleg spenna ríkti í uppbótartímanum. Aaron Lennon var svo hetja Tottenham og jafnaði, 4:4, á fjórðu mínútu uppbótartímans.
Cristiano Ronaldo sá um að afgreiða West Ham á Old Trafford. Hann skoraði bæði mörkin fyrir Manchester United, á 14. og 30. mínútu.
Marouane Fellaini tryggði Everton útisigur á Bolton, 1:0, með marki í uppbótartíma. Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn með Bolton en Heiðar Helguson sat á varamannabekknum.
Middlesbrough lagði Manchester City, 2:0. Afonso Alves skoraði úr vítaspyrnu á 53. mínútu og Gary O'Neil innsiglaði sigurinn á 90. mínútu.
Fylgst var með gangi mála í beinum textalýsingum hér á mbl.is.
Arsenal - Tottenham, bein lýsing.
Manchester United - West Ham, bein lýsing.
Liverpool - Portsmouth, bein lýsing.
Bolton - Everton, bein lýsing.
Middlesbrough - Manchester City, bein lýsing.