Tony Adams: Fari þeir sem fara vilja

Tony Adams ásamt Harry Redknapp, fyrrum stjóra Portsmouth.
Tony Adams ásamt Harry Redknapp, fyrrum stjóra Portsmouth. Reuters

Tony Adams nýráðinn knattspyrnustjóri Portsmouth segist ekki ætla að halda óánægðum leikmönnum hjá félaginu en tekur það skýrt fram að það verði engin brunaútsala á leikmönnum sínum þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í janúar.

Harry Redknapp sem yfirgaf Portsmouth um síðustu helgi til að taka við Tottenham segist hafa áhuga á nokkrum leikmönnum Portsmouth en ekki víst að honum verði kápan úr því klæðinu.

,,Ég er með mjög góðan hóp og enginn leikmaður hefur komið til mín og talað um að vilji fara eitthvað annað. Ef einhver vill fara þá má hann það. Ég vil aðeins hafa leikmenn sem vilja spila fyrir Portsmouth. Þú verður að hafa leikmenn sem eru ánægðir og vilja spila fyrir félagið. Það er alveg kristaltært,“ segir Adams.

Hermann Hreiðarsson hefur fengið fá tækifæri á þessari leiktíð en spurning er hvort tækifærunum fjölgi með tilkomu Adams í stjórastólinn. Hermann sagði við Morgunblaðið í vikunni að hann myndi kanna sína stöðu gagnvart nýjum knattspyrnustjóra en ef staðan verður óbreytt næstu vikur, það er að hann fái lítið að spila, hyggst hann leita á önnur mið í janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert