Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segist ekki trúa því að Hull, sem heimsækir Old Trafford á morgun, sé fyrir ofan Englandsmeistarana í töflunni.
„Ég segi þetta ekki til að gera lítið úr liði Hull, þvert á móti. Þetta sýnir hvað hægt er að gera ef menn vanda til verka. Úrslitin sem Hull hefur náð hingað til í deildinni eru auðvitað frábær og sannarlega undraverð. Það er alveg ljóst að við getum ekki tekið þessum leik af einhverri léttúð,“ sagði Ferguson í dag.
Hull og United hafa ekki mæst í deildarleik í 33 ár. „Árangur þeirra er aðdáunarverður. Ég hef alltaf sagt að þegar lið koma upp úr fyrstu deildinni þurfi þau að kaupa leikmenn til að styrkja lið sitt. Hull gerði þetta á annan hátt, þeir fengu George Boateng og Geovanni í frjálsri sölu og borga ekki mikið fyrir Daniel Cousin frá Rangers,“ sagði Ferguson.