Ferguson svekktur yfir of naumum sigri

Dimitar Berbatov brunar framhjá Peter Halmosi, leikmanni Hull, í leiknum …
Dimitar Berbatov brunar framhjá Peter Halmosi, leikmanni Hull, í leiknum í dag. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United var ekki ánægður með sína menn í dag þegar þeir sigruðu Hull City, 4:3, í ensku úrvalsdeildinni.

Meistararnir voru komnir í 4:1 snemma í síðari hálfleik og Cristiano Ronaldo gerði tvö markanna, en Hull hleypti samt spennu í leikinn á lokakaflanum með því að skora tvívegis.

„Ég er hálf svekktur. Við áttum að vinna með 10-11 marka mun en í stað þess þurftum við að klóra okkur framúr lokamínútunum til að hirða öll stigin. Það munaði ekki miklu að við værum teknir í bólinu undir lok leiksins. Cristiano Ronaldo hefði einn og sér getað skorað fimm mörk og ég veit ekki hve mörg marktækifæri Dimitar Berbatov lagði upp," sagði Ferguson við BBC.

„Það eina sem leikurinn skilur eftir sig, fyrir utan stigin þrjú, er líklega hversu mörg marktækifæri við sköpuðum," sagði Ferguson.

Phil Brown, knattspyrnustjóri Hull, sagði að hann væri bæði svekktur og ánægður. „Við getum borið höfuðið hátt eftir þennan leik en það er líka það eina. Það eru vonbrigði að fá ekkert að launum fyrir að skora þrjú mörk. Ég var óhress með fyrri hálfleikinn en við bitum betur frá okkur í þeim síðari. Satt best að segja hef ég meiri trú á leikmönnum okkar en þeir hafa á sjálfum sér en ég tel að við höfum sýnt og sannað að við getum haldið velli í þessari deild," sagði Brown en lið Hull er komið með 20 stig og er í hópi efstu liða þrátt fyrir ósigra í tveimur síðustu leikjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert