Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, viðurkenndi að sínir menn hefðu verið heppnir að sigra Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en lið sitt hefði hinsvegar sýnt mikinn styrk í leiknum. Tottenham er loks komið af botni deildarinnar og náð í 7 stig í þremur fyrstu leikjunum undir stjórn Redknapps sem tók við liðinu síðasta laugardag.
„Lánið lák við okkur á köflum í leiknum en styrkurinn sem liðið sýndi var stórkostlegur. Nú eru menn farnir að brosa hérna og þetta snýst allt um jákvæðni. Ef ég væri niðurlútur og vansæll, þá væru leikmennirnir það líka. Liverpool lék frábærlega og er geysilega erfiður andstæðingur. En við vorum beinskeyttari í seinni hálfleiknum en þeim fyrri, héldum áfram og gáfumst aldrei upp og strákarnir eiga hrós skilið," sagði Redknapp við BBC.
Rafael Benítez, kollegi hans hjá Liverpool, var að vonum súr yfir fyrsta ósigrinum á tímabilinu. „Við lékum virkilega vel og sköpuðum okkur nóg af færum sem hefðu getað fært okkur 4:0 forystu áður en þeir náðu að skora. Við verðum tilbúnir í næsta leik og verðum að vinna hann," sagði Benítez.