Stórsigur Chelsea, naumt hjá Man.Utd

Ricardo Fuller kemur Stoke yfir gegn Arsenal í leiknum í …
Ricardo Fuller kemur Stoke yfir gegn Arsenal í leiknum í dag. Reuters

Chelsea burstaði Sunderland, 5:0, og komst þar með uppfyrir Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Manchester United vann nauman sigur á nýliðum Hull, 4:3, á Old Trafford og Stoke City vann óvæntan sigur á Arsenal, 2:1.

Nicolas Anelka skoraði þrennu fyrir Chelsea gegn Sunderland og þeir Alex og Frank Lampard gerðu sitt markið hvor en staðan var orðin 5:0 eftir 53 mínútna leik.

Manchester United stefndi lengi vel í öruggan sigur á Hull því staðan var orðin 4:1 eftir 57 mínútur. Cristiano Ronaldo kom United yfir á 3. mínútu, Daniel Cousin jafnaði fyrir Hull en Michael Carrick og Ronaldo bættu við mörkum, 3:1 í hálfleik. Nemanja Vidic skoraði fjórða markið 4:1, á 57. mínútu. Bernard Mendy minnkaði muninn fyrir Hull, 4:2, á 69. mínútu og Geovani hleypti spennu í lokakaflann með því að skora úr vítaspyrnu á 85. mínútu, 4:3.

Ricardo Fuller kom Stoke yfir gegn Arsenal á 11. mínútu og Seyi Olofinjana bætti við marki á 73. mínútu, 2:0. Ekki bætti úr skák fyrir Arsenal að Robin van Persie fékk rauða spjaldið á 77. mínútu. Gael Clichy náði þó að svara fyrir Arsenal í uppbótartíma, 2:1.

Middlesbrough og West Ham skildu jöfn, 1:1. Hayden Mullins kom West Ham yfir en Mido jafnaði fyrir Boro á 83. mínútu.

Portsmouth tapaði 1:2 fyrir Wigan og Amr Zaki var enn á ferð fyrir Wigan þegar hann kom liðinu yfir úr vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks. Nico Krajncar jafnaði fyrir Portsmouth á 82. mínútu en Emile Heskey skoraði sigurmark Wigan í lokin.

WBA og Blackburn skildu jöfn, 2:2. Benni McCarthy kom Blackburn yfir úr vítaspyrnu á 11. mínútu en var síðan rekinn af velli í fyrri háfleiknum. Roman Bednar og Ismael Miller komu WBA í 2:1 í seinni hálfleik en Keith Andrews jafnaði fyrir 10 leikmenn Blackburn mínútu fyrir leikslok.

Fylgst var með gangi mála öllum leikjunum í beinum textalýsingum hér á mbl.is.

Chelsea - Sunderland (3:0) 5:0, bein lýsing.

Manchester United - Hull (3:1) 4:3, bein lýsing.

Middlesbrough - West Ham (0:1) 1:1, bein lýsing.

Portsmouth - Wigan (0:1) 1:2, bein lýsing.
Hermann Hreiðarsson var ekki í leikmannahópi Portsmouth í dag.

Stoke - Arsenal (1:0) 2:1, bein lýsing.

WBA - Blackburn (0:1) 2:2, bein lýsing.

Everton sigraði Fulham, 1:0, fyrr í dag en síðasti leikur dagsins, milli Tottenham og Liverpool, hefst klukkan 17.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert