Tottenham, neðsta lið ensku úrvalsdeildarinnar, lagði efsta liðið, Liverpool, að velli, 2:1, í síðasta leik dagsins í deildinni sem fram fór á White Hart Lane, heimavelli Tottenham í London. Þetta er fyrsti ósigur Liverpool á tímabilinu en Tottenham vann þarna sinn 1.500. sigur í ensku deildakeppninni frá upphafi.
Liverpool fékk óskabyrjun því Dirk Kuyt skoraði með þrumuskoti strax á 3. mínútu eftir sendingu frá Robbie Keane, fyrrum leikmanni Tottenham. En Jamie Carragher varð fyrir því að jafna metin með sjálfsmarki á 70. mínútu. Það var síðan Roman Pavlyuchenko sem skoraði sigurmarkið á síðustu mínútunni og fjórar mínútur í uppbótartíma nægðu ekki Liverpool til að jafna..
Þar með er Chelsea á toppnum eftir leiki dagsins með 26 stig, eins og Liverpool, en með betri markatölu. Manchester United er í þriðja sæti með 21 stig.
Tottenham komst úr botnsætinu og uppí þriðja neðsta sæti, og liðið er taplaust í fyrstu þremur leikjunum undir stjórn Harrys Redknapps. Það er nú með 9 stig, eins og Newcastle, en Bolton er neðst með 8 stig. Bæði Newcastle og Bolton eiga þó leik til góða, á morgun og mánudag.