Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United kveðst fullviss um að Roman Calderon, forseti Real Madrid, sé að hefja enn eitt sálfræðistríðið í baráttunni fyrir því að fá Cristiano Ronaldo til spænska félagsins. Calderon kallaði Ferguson elliæran í vikunni en Skotinn svaraði því fullum hálsi í dag og kvaðst tilbúinn til að taka upp hríðskotabyssuna í janúar.
„Mér er skítsama um samband okkar við Real Madrid, satt best að segja. Við erum með leikmanninn sem við viljum hafa. Þeir fá ekki leikmanninn sem þeir vilja fá. Allt þetta vesen á Calderon er vegna þess að þeir fá ekki Cristiano. Calderon er búinn að lofa svo miklu uppí ermina á sér um að hann muni krækja í strákinn. Sumt sem hann hefur sagt er tóm steypa og það skín mikill hroki af öllu hjá honum. Það var aldrei inni í myndinni, aldrei, að Ronaldo færi frá okkur," sagði Ferguson við Sky Sports.
Ferguson er viðbúinn frekari tilraunum af hálfu Real Madrid. „Já, þetta síðasta gætu verið fyrstu skotin í nýju stríði hjá þeim til að reyna að fá hann. En við erum tilbúnir og eigum nóg af skotfærum. Ég nota bara einfalda byssu í augnablikinu en er tilbúinn til að draga fram hríðskotabyssuna í janúar," sagði Ferguson, hvergi smeykur.