,,Þetta var vítaspyrna," sagði Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, á vef félagsins í kvöld eftir 1:1 jafntefli liðsins gegn Atletico Madrid. Gerrard jafnaði metin úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur á 89. mínútu og þótti mörgum vítaspyrnudómurinn ansi hæpinn.
,,Ég á eftir að sjá þetta aftur en í mínum huga var þetta vítaspyrna. Ég var á undan í boltann og leikmaðurinn fór aftan í mig. Ef þetta hefði gerst úti á vellinum þá hefði verið dæmd aukaspyrna, svo þetta var víti. Ég get vel skilið gremju leikmanna Atletico Madrid þar sem skammt var eftir af leiknum þegar vítið kom. En svona er fótboltinn,“ sagði Gerrard.
,,Þetta var dýrmætt stig. Góð lið tapa að öllu jöfnu ekki tveimur leikjum í röð og það var mikilvægt að við fengum eitthvað út úr leiknum. Staða okkar í riðlinum er sterk eftir þessi úrslit,“ sagði fyrirliðinn.